Bestu umhverfisfréttabréfin
Hvernig er best að fylgjast með fréttum um umhverfismál?
Ég á frábæra kærustu sem er listamaður. Ég er ekki nærri því eins listrænn og hún, en hún segir að við séum samt bæði listamenn. Að hún sé listamaður í eiginlegri merkingu orðsins og að ég sé svona to-do lista maður. Þannig að í anda þess hve ég er mikill listamaður og elska gott skipulag fáið þið hér sendan lista yfir bestu umhverfisfréttabréfin sem ég hef fundið til þessa.
Dæmi um afrakstur minnar listamennsku:
Fegra útlit Fréttabréfs Finns
Byrja að skrifa fréttabréf nr. 2Safna 100 skráningum á póstlistann (enn í vinnslu)
En, af hverju fréttabréf?
Það er ekkert grín að reyna að fylgjast með öllu því sem er að gerast í umhverfismálum í heiminum. Nær ómögulegt er að ætla sér að skoða alla helstu innlendu og erlendu fréttamiðlana á hverjum degi og kafa djúpt ofan í hvern og einn einasta þeirra til að finna allar fréttirnar og greiningarnar um umhverfismál líðandi stundar. Og það sem flækir þetta enn frekar er að umhverfistengdar fréttir fá yfirleitt ekki að hanga lengi sem efstu fyrirsagnirnar.
Regluleg fréttabréf úr ýmsum áttum hafa hins vegar náð að uppfylla mínar umhverfisfréttaþarfir að langmestu leyti. Annað fólk hefur í raun boðist til að vakta það sem er að gerast í umhverfismálum í heiminum, taka það snyrtilega saman og fleyta því í innhólfið hjá áhugasömum.
Helstu kostirnir við slík fréttabréf finnst mér vera:
Að fá áminningu um að fylgjast með
Tímasparnaður
Að fá fjölbreyttari fréttir en ella
Uppgötvun á greiningum sem annars fer lítið fyrir
Og gallarnir:
Mikið efni sem maður kemst ekki alltaf yfir
Ekki til neitt innlent umhverfisfréttabréf (og nei, ég hef því miður ekki tök á því að taka það að mér að svo stöddu)
Andleg þreyta við að fylgjast mikið og reglulega með umhverfisfréttum
En nú að kjarna málsins: hver eru bestu umhverfisfréttabréfin?
1. Down to Earth - The Guardian
Þetta er mitt uppáhalds umhverfisfréttabréf. Magn fréttaefnis í hverri sendingu er alveg passlegt fyrir minn smekk og umfjöllunin er gagnrýnin. Fréttaefnið er líka alltaf mjög viðeigandi og greiningarnar vandaðar. Fréttaefnið er dregið mátulega mikið út úr fréttagreinunum sjálfum og svo hlekkir á þær ef maður vill lesa meira.
Einföld uppsetning og falleg grafík gerir það að verkum að það er einstaklega þægilegt að lesa þessi bréf. Sem mótvægi við þungar fréttir og vikulega grafið um styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu eru svo alltaf þrjár jákvæðar umhverfisfréttir, og annað léttara efni á borð við skýring á umhverfistengdu hugtaki, umfjöllun um umhverfishetjur, valdeflandi sögur um aðgerðir einstaklinga, lífvera vikunnar og ljósmynd vikunnar.
Helstu kostir: Gagnrýnin umfjöllun, góðar greiningar á pólitískum málefnum, fjölbreytt efni, inniheldur líka góðar umhverfisfréttir, falleg uppsetning, þægilegt til lestrar
Helstu gallar: Fréttaefnið er nær eingöngu miðað að hinum vestræna heimi og er eingöngu af fréttavef The Guardian þannig að bréfin bjóða ekki upp á eins vítt sjónarhorn og sum önnur fréttabréf.
Tíðni: Vikulega á fimmtudögum
2. Daily Briefing - Carbon Brief
Þetta eru algjör snilldar fréttabréf fyrir þau sem vilja fylgjast mjög náið með þróun loftslagsmála í heiminum. Á hverjum degi taka þau saman ítarlegan lista frétta, greininga, skoðanagreina af hinum ýmsu miðlum, þvert á lönd og heimsálfur.
Bréfin fjalla aðallega um stórar ákvarðanir sem tengjast loftslagsaðgerðum, breytingar í pólitísku landslagi loftslagsmála og niðurstöður stórra nýrra rannsókna og greininga. Fókusinn er aðallega á hinn vestræna heim en reglulega rata inn fréttir af miðlum utan Evrópu sem fjalla t.d. um þróun loftslagsmála í Kína, Indlandi, eða Suður Ameríku.
Helstu kostir: Mikið og ítarlegt efni, gott yfirlit yfir innihaldið efst í bréfinu, fréttum safnað af mörgum fjölbreyttum miðlum, góð greining á helstu fréttunum þar sem dregnar eru fram mismunandi heimildir sem fjalla um sama efnið út frá mismunandi sjónarhornum eða forsendum, vel fjallað um alþjóðlegar samningaviðræður sem tengjast umhverfismálum
Helstu gallar: Stundum of mikið og ítarlegt efni til að maður leggi í að skoða bréfin almennilega, nær eingöngu „slæmu“ fréttirnar, nær ekkert myndrænt efni til að auðvelda lesturinn
Tíðni: Daglega
3. DeBriefed - Carbon Brief
Ítarleg samantekt á helstu umhverfisfréttum (þó aðallega loftslagsfréttum) vikunnar. Efnið er mjög svipað því sem kemur í daglegu Daily Briefing sendingunum en það er aðeins auðlesanlegra og betur bútað niður í DeBriefed. Þetta gerir DeBriefed betri kostur fyrir þau sem vilja fylgjast vel með þróun loftslagsmála en hafa ekki tök á að lesa sig í gegn um ítarlega samantekt á hverjum degi. Ef maður gefur sér 10 til 15 mínútur á hverjum föstudegi til að renna í gegn um samantektirnar og greiningarnar í DeBriefed, þá fleytir það manni ansi langt.
Efnið í þessu bréfi, í samanburði við hitt Carbon Brief bréfið, er líka heldur fjölbreyttara. Til viðbótar við fréttasamantektina er einnig að finna í bréfinu: tölu vikunnar, graf eða kort vikunnar, lista yfir viðbótarefni s.s. myndbönd og hlaðvörp, listi yfir mikilvæga viðburði framundan, og listi yfir mikilvæg laus störf í loftslagsgeiranum.
Helstu kostir: Ítarlegt, vel bútað niður og auðlesanlegt, vandaðar greiningar, fjölbreytt efni
Helstu gallar: Stundum aðeins of langt, beinir athyglinni ekki alveg nóg að náttúrumiðuðum og félagslegum lausnum
Tíðni: Vikulega á föstudögum
4. Green Daily - Bloomberg
Þessi bréf eru vel skrifuð og er athyglinni beint að einu aðal viðfangsefni hverju sinni í upphafi hvers bréfs. Stundum er kafað djúpt í þetta valda viðfangsefni og stundum ekki. Neðar í bréfinu er síðan dregin fram ein áhugaverð töluleg staðreynd og ein skörp tilvitnun sem uppbrot. Þar fyrir neðan er stutt samantekt á öðrum umhverfistengdum fréttum á Bloomberg þann daginn, fjallað um ofsaveðuratburði af völdum loftslagsbreytinga þegar þeir eiga sér stað á stórum skala, og að lokum er lesendum bent á nýjasta þátt umhverfishlaðvarpsins Zero sem Bloomberg heldur úti.
Helstu kostir: Ekki of mikið efni og athyglinni ekki dreift um of
Helstu gallar: Frekar þröngur fókus hverju sinni og mest fjallað um fréttir á vegum Bloomberg frekar en að taka inn umfjöllun annarra miðla líka
Tíðni: Daglega
5. Outrage + Optimism - Global Optimism
Þetta fréttabréf er sniðið í kring um Stubborn Optimism hreyfinguna og hlaðvarpið Outrage + Optimism. Fólkið sem stendur á bak við þetta er það fólk sem veit hvað mest um loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi og er hvað mest sjóað í þessum heimi. Kjarnateymið samanstendur af:
Christiana Figueres, einn fremsti umhverfishugsuður okkar tíma og f.v. framkvæmdastjóra Loftslagssamnings Sþ. (stundum kölluð móðir Parísarsáttmálans)
Tom Rivett-Carnac, gríðarlega reynslumikill pólitískur ráðgjafi og hægri hönd hennar Christiana þegar hún var hjá Sþ.
Paul Dickinson, gríðarlega reynslumikill sjálfbærnileiðtogi, aðallega í einkageiranum
Innihald þessara flottu fréttabréfa þessa flotta fólks er fljótandi og endurspeglar yfirleitt bara pælingar þeirra hverju sinni. Þetta eru djúpar en kjarnyrtar og oft vel jarðtengdar og hjartnæmar greiningar á umhverfisfréttum líðandi stundar. En svo eru líka fastir liðir þar sem bent er á nýjasta hlaðvarpsþáttinn þeirra, farið yfir helstu viðburðina sem eru í gangi eða eru framundan, og teknar eru saman ráðleggingar að les- eða áhorfsefni.
Helstu kostir: Ótrúlega verðmætar og djúpar greiningar, sjónarhorn mikilla reynslubolta og sérfræðinga, falleg og sterk hugmyndafræði (þrjósk bjartsýni) sem er höfð sem rauði þráðurinn
Helstu gallar: Óregla á sendingum og ekki endilega besta yfirlitið yfir helstu umhverfisfréttirnar
Tíðni: 2 vikna fresti (þó ekki alltaf, smá óregla á tíðninni)
Fyrir þau ykkar sem eruð ekki þegar áskrifendur að neinum umhverfisfréttabréfum en viljið byrja að prófa ykkur áfram myndi ég mæla með að þið byrjið á Down to Earth frá The Guardian og sjáið hvernig ykkur líkar það. En svo auðvitað þarf maður bara að átta sig á því hvað maður vill fá út úr svona fréttabréfum, hvort maður vill þægilega, mátulega langa og gagnrýna samantekt einu sinni í viku eða hvort maður vill mikið efni úr ýmsum áttum á hverjum degi.
Ef einhver ykkar eru þegar sjóuð í heimi umhverfisfréttabréfa myndi ég mjög gjarnan vilja heyra frá ykkur um hvaða fréttabréf eru í uppáhaldi hjá ykkur - ég er alltaf spenntur að prófa fleiri og gef kannski út annan svona lista síðar. Megið endilega skella ábendingum um umhverfisfréttabréf í athugasemd við þessa færslu eða svara póstinum ef þið fáið þessar sendingar frá mér í tölvupósti :)








I <3 Heated, by Emily Atkins