Drill, baby, drill - eða hvað?
Er Trump 2.0 eins stórt umhverfisslys og virðist við fyrstu sýn?
Kæri lesandi, hér kemur mitt fyrsta fréttabréf til þín! Þetta eru mín fyrstu skrif hér á þessum miðli og er vonin sú að þetta tilraunaverkefni mitt verði að reglulegum sendingum með greiningum, upplýsingum og pælingum um það sem er að gerast í heiminum og hausnum mínum, aðallega tengt umhverfismálum.
Eftir nokkurra ára starf í skipulagðri umhverfisverndarbaráttu gegni ég ekki lengur neinum opinberum hlutverkum eða embættum - og skrifa ég því á þessum miðli bara sem ég sjálfur í krafti minna eigin hugsana og skoðana. Skrifin eru í lengri kantinum í þetta skiptið en ég lofa styttri færslu næst. Njóttu lestursins!
TLDR: Áhrif Trump 2.0 á náttúru og loftslag verða mjög sennilega mjög slæm. En spurningin um hversu slæm er flókin og veltur á því hvaða stefnu atvinnulífið tekur á næstu árum, hversu öflug mótspyrna náttúruverndarhreyfingarinnar verður, aðgerðum stakra fylkja innan BNA og hvort önnur ríki heims halda sínu striki og gefi í eða ekki.
„Breathe, baby, breathe“ er ráðið sem Christiana Figueres, fv. framkvæmdastjóri Rammasamnings Sþ. um loftslagsbreytingar (UNFCCC) gefur okkur sem höfum áhyggjur af áhrifum Trump 2.0 á umhverfis- og loftslagsbaráttuna næstu fjögur árin.
Eins lítið og mig langar til að veita þessum brjálaða manni meiri athygli en hann fær nú þegar, þá er ómögulegt að líta fram hjá þeim gífurlegu völdum sem hann fer með og þar af leiðandi þeim áhrifum sem hann getur haft á heiminn.
Tekið skal fram að ég er með mjög þröng gleraugu á mér við þessi skrif. Ég beini sjónum mínum eingöngu að umhverfismálum til að einfalda greininguna. Hins vegar er ég vel meðvitaður um ógnvænleg áform hans á öðrum sviðum, s.s. jafnréttismála, sem eru skaðleg í sjálfu sér en munu líka koma til með að hafa slæm afleidd áhrif á umhverfisbaráttuna. Geymum þá greiningu í bili.
Hvað ætlar hann að gera?
Árið 2024 var heitasta árið frá upphafi mannkyns og fyrsta árið þar sem meðalhitinn var meira en 1,5 gráðu Celsius yfir meðalhita Jarðar við iðnbyltingu. Tilvalið ár til að kjósa til valda einn versta loftslagsafneitara heims. En hvað ætlar hann að gera til að hrinda í framkvæmd vanþóknun sinni á baráttunni gegn loftslagsbreytingum og eyðingu vistkerfa? Hér er listi (ekki tæmandi) yfir það sem hann hefur þegar fyrirskipað eða boðað:
Afturkalla Inflation Reduction Act (margþættur aðgerðapakki og stærsta framlag Biden til loftslagsmála)
Afturkalla Green New Deal aðgerðapakkann frá Biden
Draga Bandaríkin (BNA) úr Parísarsáttmálanum (aftur)
Lýsa yfir neyðarástandi í orkumálum innan BNA (til að auka vinnslu á jarðefnaeldsneyti, sbr. „drill, baby, drill“)
Flýta verulega og þrýsta í gegn leyfisveitingum sem snúa að olíuvinnslu með því að afnema ferla og veikja regluverk (t.d. Endangered Species Act)
Draga úr eftirliti með orkuvinnslu
Veita á ný leyfi til olíuborunar innan gríðarstórs náttúruverndarsvæðis í Alaska
Óvirkja hömlur á vinnslu jarðefnaeldsneytis á jörðum í ríkiseigu
Banna vindorkuver á sjó við strendur BNA
Afturkalla löggjöf og hvata sem Biden setti á til að ýta undir rafbílavæðingu
Þurrka út alla umfjöllun um loftslagsmál á opinberum vefsíðum
Klippa á regluverk um umhverfisréttlæti og á opinberan fjárstuðning til samtaka sem vinna að umhverfisréttlæti
Afnema skatt sem snýr að því að draga úr metan losun olíufyrirtækja
Draga verulega úr þróunaraðstoð (þ.m.t. til fjölda loftslagsverkefna)
Þversagnirnar
Þær eru margar þversagnirnar sem hringsóla í kring um Trump. Kaldhæðnin nær ákveðnu hámarki í tengslum við hatur hans á rafbílum og afnám á stuðningi við þann iðnað vegna þess að hægri hönd Trump í þetta skiptið er auðvitað Elon Musk, ríkasti maður heims sem hefur einmitt auðgast að mestu leyti vegna framleiðslu og sölu á rafbílum [insert face plant].
Svo er það sú staðreynd að Repúblikana-fylki hefðu komið til með að græða gífurlega á IRA (loftlagspakka Biden), meira að segja töluvert meira en þau fylki sem eru undir stjórn Demókrata. Þetta kemur að mestu til vegna möguleika suðrænna fylkja á uppbyggingu endurnýjanlegrar orku s.s. sólarorkuvera.
Náttúruhamfarir í BNA eru að verða tíðari og öflugri vegna loftslagsbreytinga og því galið hjá Trump að ætla að hundsa þessar afleiðingar í þeirri trú að það muni styrkja efnahag landsins. Nýlegasta dæmið eru auðvitað eldarnir í LA sem er búið að reikna út að hafi verið 35% af völdum loftslagsbreytinga eða 35% öflugri vegna loftslagsbreytinga. Einnig er talið að þessir eldar hafi ollið mestu efnahagslegu tjóni af öllum gróðureldum í Kaliforníu til þessa. Þetta er akkúrat það sem leiðtogar í Evrópu hafa bent á þegar spurð út í úrsögn BNA úr Parísarsáttmálanum, að hagsmunum BNA sé best borgið innan Parísarsáttmálans, sérstaklega til lengri tíma.
Svo er talinn möguleiki á að Trump muni, sem hluti af tollastríðum sínum, setja á einhverskonar kolefnistoll gagnvart ákveðnum löndum til að landa höggi á ákveðnum vöruflokkum. Þversagnirnar eru og verða pottþétt fleiri.
Hverjar verða afleiðingarnar?
Það er engin leið að vita hverjar afleiðingarnar verða nákvæmlega þegar um er að ræða eins óútreiknanlegan persónuleika og Trump en það er nokkuð ljóst að þær verða slæmar. Það að meta hversu slæmar er hins vegar mjög snúið verkefni.
Ítarleg greining loftslagshugveitunnar Carbon Brief sýnir að Trump 2.0 gæti bætt 4 milljörðum tonna CO2-ígilda út í andrúmsloftið fyrir 2030. Þetta magn jafngildir árlegri losun ESB og Japan til samans eða þeirra 140 landa sem losa minnst. Sem sagt, frekar hræðilegt fyrir loftslagið. Hér að neðan má sjá spá um muninn á þróun losunar undir Biden og Trump.
Þegar er búið að segja upp starfsfólki hjá hinum ýmsu stofnunum BNA sem hefur unnið að ýmsum loftslagstengdum verkefnum og er líklegt að mun fleiri verði látin fjúka á næstu vikum og mánuðum sem sinna svipuðum störfum. Einnig er búið að framkvæma mjög víðtæka ritskoðun á loftslagstengdum upplýsingum á vefsíðum opinberra stofnanna sem mun ýta undir upplýsingaóreiðu og takmarka aðgengi almennings, samtaka, fylkja og fyrirtækja að mikilvægum tölum, leiðbeiningum, o.fl. Erfitt er að segja til um hversu djúpstæð áhrif þessi þróun mun hafa en þetta er klárlega mjög ógnvekjandi. Því færri sérfræðingar sem vinna að loftslags- og umhverfismálum innan opinbera kerfisins og því minna af upplýsingum sem eru opinberlega aðgengilegar og áreiðanlegar, því erfiðara verður að spyrna á móti brjálæðinu.
Hins vegar eru skiptar skoðanir um hversu langt Trump mun ná að ganga í aðför hans að umhverfis- og loftslagsmálum af ýmsum ástæðum. Að mínu mati er ólíklegt að öll loforð Trump 2.0 sem tengjast umhverfismálum muni rætast. Í raun held ég að eyðileggingaráform hans muni ekki ná að rista nærri eins djúpt og hann myndi vilja. Hvers vegna? Jú vegna þess að eitt af meginmarkmiðum hans er að græða peninga. Það sem skiptir hann hvað mestu máli er að skapa einhvers konar bandarískt yfirráð (e. American dominance) og ef löggjöf og verkefni úr tíð Biden hjálpa til í þeirri vegferð þá fá þau kannski að standa.
Nýlega samþykkti Trump t.d. að veita lán til fyrirtækis sem heitir Montana Renewables og framleiðir sjálfbært flugvélaeldsneyti (e. SAF) og gerir lánið fyrirtækinu, sem er það stærsta í sínum geira í heimsálfunni, að rúmlega tvöfalda framleiðsluna sína. Þetta virðist vera business ákvörðun burt séð frá tengslum framleiðslunnar við samdrátt í losun.
Ofsaveðuratburðirnir, gróðureldarnir, og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga sem þegar eru farnar að rústa heilu samfélögunum víða um Bandaríkin munu líka sennilega hafa einhver áhrif á ákvarðanatöku á hinum ýmsu stjórnsýslustigum og meðal atvinnulífsins. Það gæti nefnilega verið meira vald í loftslagshamförunum sjálfum en í höndum forsetans. Fylkin og fólkið sem hefur lent í og munu verða fyrir barðinu á þessum hamförum eru mörg líkleg til að halda sínu striki eða jafnvel herða eigin aðgerðir og hvetja önnur fylki til að gera slíkt hið sama.
Að mínu mati munu neikvæð áhrif Trump á umhverfið og loftslagið velta á eftirfarandi breytum:
Popúlismi eða peningar: hvort mun Trump á endanum leggja meiri áherslu á aðförina að mannréttindum og umhverfismálum eða efnahagslegt yfirráð BNA?
Vendipunktar viðskiptalífsins: er nógu stórt hlutfall einkageirans í BNA komið á rétta braut til að halda áfram í átt að lágkolefnahagkerfi framtíðarinnar eða mun atvinnulífið stjórnast af ótta við Trump og fylkjast á bak við hann?
Slagkraftur náttúruverndarhreyfingarinnar: hversu miklum árangri mun mótspyrna náttúruverndarhreyfingarinnar skila?
Forysta einstakra fylkja: hversu hugrökk verða stök fylki innan BNA þegar kemur að því að standa við eða herða sínar aðgerðir og hversu rík samstaða mun myndast milli fylkja sem eiga alla sína hagsmuni undir því að loftslagsmál séu í forgangi?
Áhrif á alþjóðavettvang: mun samstarf landa á alþjóðavettvangi halda áfram eins og ekkert hafi gerst eða jafnvel styrkjast, eða munu fleiri lönd stökkva á vagninn með Trump og hrinda úr jafnvægi alþjóðlegri samvinnu, t.d. undir Parísarsáttmálanum?
Hljóðlát mótspyrna atvinnulífsins
Það hvora nálgunina Trump mun velja, þ.e. popúlisma eða peninga finnst mér ómögulegt að spá fyrir um vegna þess hvað hann hefur látið margt sturlað flakka undanfarnar vikur. En spurningin um atvinnulífið og viðbrögð þess er kannski ögn einfaldari. Hún er líka stór því einkageirinn í BNA er yfirleitt talinn mjög öflugur og talinn hafa mikil áhrif á umheiminn.
Gefum okkur það að markmið einkageirans sé í grunninn að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu og helst með eins miklum hagnaði og mögulegt er. Peningamiðað markmið einkageirans er því frábrugðið og oft alls ekki í samræmi við pólitísk markmið stjórnmálamanna. Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig atvinnulífið í BNA mun bregðast við nýjum og öfgafullum áformum og aðgerðum Trump 2.0.
Margir stórir viðskiptabankar í BNA hafa að undanförnu dregið sig úr Net Zero Bank Alliance samstarfinu sem kann að virðast slæm þróun, en líklega er þetta bara pólitískt strategísk sýndarmennska á yfirborðinu sem mun ekki hafa nein áhrif á það hvernig bankarnir hátta sínum grænu fjárfestingum. Þar er það hagnaður og áhætta sem ráða för miklu meira en pólitískar sveiflur. Útlitið út á við gagnvart Trump 2.0 er það eina sem þarf að samræmast hugmyndum hans, svo er hægt að hátta sjálfri starfsemi bankanna þannig að hún styðji við vegferðina að lágkolefnahagkerfum. Evrópskir bankar hafa líka þegar stokkið inn í þetta samstarf sem viðbragð við úrsögn bandarísku bankanna sem gæti verið einhverskonar fyrirboði fyrir það sem koma skal, að aðrir leikendur utan BNA herði aðgerðir sínar á móti.
Staðreyndin er sú að sjálfbærni og lágkolefnaframleiðsla er að verða, og er í mörgum tilfellum orðin, lykillinn að góðum business. Hagkerfi heims eru þegar farin að breyta um kúrs og þessari stefnubreytingu heimsins í átt að sjálfbærari samfélögum verður ekki snúið til baka. Besta dæmið er auðvitað að sólarorka sé orðinn ódýrasti orkukosturinn.
Ef forsendan er sú að endanlegt markmið Trump sé amerískt yfirráð þá mun hann gera það sem þarf til að ná því markmiði og líklega er það endurnýjanleg orka og önnur loftslagsvæn framleiðsla sem mun stuðla best að þessu markmiði.
Grænn iðnaður og uppbygging endurnýjanlegrar orku skapar þar að auki mikinn fjölda starfa sem er mikilvægur mælikvarði sem oft er horft til þegar verið er að meta árangur forseta í BNA, og stuðlar þar að auki að öflugra hagkerfi sem er þá einmitt í takt við áherslur Trump.
Varðandi yfirlýsingar forsetans um orkuskort og stóraukna framleiðslu jarðefnaeldsneytis er það ekki endilega eitthvað sem hann hefur mikla stjórn yfir. Olíuframleiðendur, einkafyrirtækin í þessum iðnaði, munu ráða því að mestu leyti hvort farið verður í frekari olíuleit og -vinnslu eða ekki og líklega er það ekki þeim í hag að svo stöddu að auka framboð á olíu. Þegar framboðið eykst á meðan eftirspurnin stendur í stað lækkar verðið sem framleiðendurnir fá fyrir hverja tunnu af olíu og því ekki hagstætt fyrir olíuframleiðendur að auka framboðið án þess að eftirspurnin aukist fyrst. Trump gæti því haft takmörkuð áhfir á umfang olíuframleiðslu í BNA á næstu árum.
Ég held að einkageirinn gæti spilað stórt hlutverk í því að drífa áfram loftslagsaðgerðir í BNA á næstu árum og virkað sem ákveðið mótvægi gegn áformum Trump. En það veltur allt á því hvað atvinnulífið telur þjóna hagsmunum þeirra best næstu árin, að stefna í átt að sjálfbærri framleiðslu og neyslu eða beygja sig undir þrýsting Trump 2.0.
Mótspyrna náttúruverndarhreyfingarinnar
Við megum ekki leggja traust okkar alfarið á atvinnulífið því markaðurinn mun að sjálfsögðu ekki leysa þetta upp á sitt einsdæmi. Kannski er ég stórlega að ofmeta getu og vilja atvinnulífsins í BNA til að standa í lappirnar gegn Trump og hans umhverfishatri. Hvernig svo sem atvinnulífið mun bregðast við þá er klárt að náttúruverndarhreyfingin í BNA og um allan heim mun þurfa að spyrna á móti fastar en nokkru sinni fyrr.
Það sem við lærðum undir Trump 1.0 var að frjáls félagasamtök gátu farið í öflugar málsóknir til að koma í veg fyrir að alls konar vitleysu og eyðileggingu. Mörg mál unnust seinast en Trump 2.0 virðist hins vegar vera mun afdráttarlausari og tilbúinn að ganga lengra í fáránleikanum heldur en síðast, þannig að það mun reyna meira á hin ýmsu verkfæri sem náttúruverndarhreyfingin hefur í verkfærakistunni og úthaldið.
Það sem ég held að muni skipta miklu máli til að veita öfluga mótspyrnu er að byggja sterkar breiðfylkingar þvert á samtök, hópa samfélagsins, geira, flokka og fylki. Mörg stök fylki, mörk samfélög, og margir kjörnir fulltrúar Repúblikana eiga hagsmuna að gæta þegar kemur að því að standa vörð um umhverfislöggjöf og loftslagsaðgerðir í BNA. Ef þessir fjölbreyttu aðilar ná að stilla saman strengi sína og beita sér gegn ákveðnum áformum Trump held ég að það sé hægt að ná merkilega miklum árangri. Og þetta á raunar við óháð því hver forsetinn er; munurinn er kannski sá að núna þarf að spila vörn en þegar aðrir forsetar hafa verið hefur verið rými til þess að spila sókn.
Ef ég ber saman loftslagsmál og önnur umhverfismál, þá er ég ekki alveg jafn bjartsýnn þegar kemur að náttúruvernd. Þar held ég að muni reyna verulega á stjórnsýslu og mótspyrnu einstakra fylkja, samtakamátt ákveðinna samfélaga og náttúruverndarsamtök. Efnahagslegi ávinningurinn sem Trump er að leitast eftir er ekki eins sterkur í náttúrumiðuðum aðgerðum eins og í tæknilegri markaðslausnum, allavega ekki til skemmri tíma, og business tækifærin ekki eins augljós.
Óvæntir leikendur til bjargar?
Rétt áður en að seinna kjörtímabili Biedn lauk skilaði hann nýju og hertu landsmarkmiði (e. NDC) sem átti að skila allt að 66% samdrætti fyrir árið 2035 og kolefnishlutleysi árið 2050 . Hann vissi að Trump myndi ekki standa við þetta en vonin var sú að fylkin og aðrir aðilar í samfélaginu gætu nýtt þetta sem ramma og hvatningu til að halda áfram að draga úr losun með sameiginlegt markmið að leiðarljósi.
Eins og ég nefndi hér ofar þá eru mörg rauð fylki sem eiga mikla hagsmuni undir í endurnýjanlegri orku og alls ekki allir kjörnir fulltrúar Repúblikana undir sömu loftslagsafneitunarálögum og Trump. Ég spái því að einhver þessara fylkja og kjörnu fulltrúa eigi eftir að koma okkur skemmtilega á óvart með mótspyrnu gegn einhverjum af áformum Trump 2.0.
Þetta er akkúrat það sem gerðist undir Trump 1.0, fylkin mörg hver tóku aðgerðir í eigin hendur og hertu markmið sín um samdrátt þegar Trump dró BNA úr Parísarsáttmálanum í fyrra skiptið.
Ef við lítum aðeins út fyrir BNA þá gæti verið að Kína, Indland og önnur stór losunarmikil ríki sem vilja skapa sér stærra pláss sem leiðtogar á alþjóðavettvangi eigi eftir að koma okkur á óvart. Þó gætu fleiri lönd gengið í spor BNA og dregið sig úr Parísarsáttmálanum. Sturlaðar ákvarðanir og aðgerðir Trump 2.0 eru fordæmisgefandi og veita pólitískt skjól fyrir aðra öfga-hægri leiðtoga til að valda meiri skaða en hefði annars verið liðinn af almenningi og alþjóðasamfélaginu.
Í ljósi úrsagnar BNA úr Parísarsáttmálanum ákvað góðgerðasjóðurinn Bloomberg Philanthropies að greiða jafnvirði þess sem BNA hefði átt að greiða til skrifstofu Rammasamnings Sþ. um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Mögulega munu fleiri samskonar góðgerðasjóðir auðugra einstaklinga taka að sér virkara hlutverk þegar kemur að fjármögnun loftslagsaðgerða á meðan Trump 2.0 er við völd. En hér er einnig mikil óvissa og ég er ekki endilega mjög vongóður um slíka þróun því við erum strax farin að sjá einstaklinga eins og Jeff Bezos, sem hefur á undanförnum árum veitt háum fjárhæðum í loftslagstengd verkefni, draga úr slíkri starfsemi til að þóknast Trump.
Íslenskar hliðstæður
Að lokum langar mig að draga fram ákveðnar hliðstæður sem hafa óvænt skapast milli Íslands og BNA að undanförnu. Það eru nefnilega hliðstæður við orðræðu Trump um meintan orkuskort í BNA og orðræðu um meintan orkuskort á Íslandi.
BNA hafa aldrei framleitt meiri olíu en nú en samt hefur Trump lýst yfir neyðarástandi í orkumálum og boðað stóraukna framleiðslu á jarðefnaeldsneyti sem hann segist ætla að knýja í gegn með afnámi á regluverki og einföldun leyfisveitinga.
Á svipaðan hátt heyrast háværar raddir um að stórauka þurfi raforkuframleiðslu á Íslandi með einföldun á regluverki og hraðari leyfisveitingarferlum þrátt fyrir að Ísland sé stærsti raforkuframleiðandi á íbúa í heiminum.
Mér finnst þetta áhugaverð líkindi en leyfi öðrum að greina þetta frekar.
Það er enn von!
Drögum andann djúpt, því það er enn von. Trump 2.0 mun hafa virkilega slæm áhrif á náttúruna og loftslagið en það eru margir sterkir leikendur innan sem utan BNA sem ég tel að muni veita sterka mótspyrnu.
En hvað ætli stjórnvöld, atvinnulífið og aðrir mikilvægir leikendur geri nú þegar þörfin hefur aldrei verið meiri fyrir nýja og framsækna umhverfisleiðtoga; stíga þau fram eða sitja þau hjá?
Heimildir og ítarefni:
Analysis: Trump election win could add 4bn tonnes to US emissions by 2030
How the world has responded to Trump’s Paris climate agreement withdrawal
What to know about Trump’s first executive actions on climate and environment
Trump administration suspends $5bn electric vehicle charging program
Record-breaking growth in renewable energy in US threatened by Trump
GT Voice: US climate retreat highlights need for China-EU green co-op
Banks in EU Commit to Climate Group Deserted by Wall Street
How Trump is targeting wind and solar energy – and delighting big oil
Scientists brace ‘for the worst’ as Trump purges climate mentions from websites
Key Climate-Change Data Offline for Maintenance, US Says
The LA county wildfires could be the costliest in US history, early estimates say
Trump administration approves sustainable aviation fuel refinery loan
Under Trump, Billionare Climate Champions Have Gone Quiet
Elon Musk’s journey from climate champion to backing EV-bashing Trump
Jeff Bezos fund ends support for climate group amid fears billionaires ‘bowing down’ to Trump




