Hvers vegna vegan? (I. hluti)
Vegan fyrir umhverfið
Gleðilegt nýtt ár og gleðilegan Veganúar!
Ég er reglulega spurður út í ýmislegt sem tengist því að ég sé vegan, hvort það sé ekki erfitt, hvort ég sakni þess ekki að borða kjöt, hvort það sé ekki dýrt, hvort ég sé að fá öll nauðsynleg næringarefni o.s.frv.
En spurning sem ég fæ þó sjaldan er hvers vegna ég sé eiginlega grænkeri yfir höfuð. Kannski hefur fólk ekki áhuga á því, telur sig vita það eða finnst vandræðalegt, jafnvel óviðeigandi að spyrja.
Mér finnst þetta allavega mikilvæg spurning og ætla að útskýra, í nokkrum hlutum, hvers vegna ég tók þá ákvörðun fyrir sex árum síðan að hefja mína vegferð í átt að veganisma.
Þessar pælingar mínar um veganisma byrjuðu allar þegar ég var á síðasta árinu mínu í menntaskóla og var þá orðinn mikill umhverfissinni. Ég var sífellt að leita leiða til að minnka neikvæð áhrif mín á náttúruna og loftslagið og ákvað um áramótin 2019-2020 að borða bara kjöt einu sinni í viku.
En hvaða áhrif hafa dýraafurðir á umhverfið?
Áhrif á vistkerfi
Matvælaframleiðsla tekur mikið pláss eða um 45% af öllu byggilegu landi á jörðinni. En þó þarf matvælaframleiðsla mjög mis mikið pláss eftir því hvað er verið að framleiða. Dýraafurðir taka að jafnaði mun meira pláss í framleiðslu en afurðir úr jurtaríkinu. Á heimsvísu þekur framleiðsla dýraafurða um 38 milljón ferkílómetra sem samsvarar u.þ.b. allri Norður- og Suður-Ameríku til samans á meðan framleiðsla matvæla úr jurtaríkinu þekur einungis um 8 milljón ferkílómetra sem samsvarar u.þ.b. flatarmáli Bandaríkjanna.
Það sem er síðan enn áhugaverðara er að öll framleiðsla dýraafurða á heimsvísu sér einungis fyrir um 17% af þeim kaloríum sem við mannfólkið borðum á meðan matur úr jurtaríkinu sér til þess að hin 83% séu uppfyllt.
Svipaða sögu má segja um prótein því dýraafurðir uppfylla 38% af próteinþörf mannkyns en matur úr jurtaríkinu skaffar 62% af próteininu sem fólk borðar á heimsvísu.
Það er því augljóst að framleiðsla dýraafurða ýtir undir óhóflega landnotkun og eyðileggingu vistkerfa. Við gætum auðveldlega framleitt fleiri kaloríur og meira prótein á minna flatarmáli en landbúnaður þekur í dag ef við myndum einungis eða að mestu leyti framleiða jurtafæði til manneldis.
Vandinn er nefnilega sá að dýr umbreyta fæðunni sinni oft á mjög óskilvirkan hátt yfir í vöðvamassa. Það tapast allt að 90% af orkunni, próteininu og öðrum næringarefnum við það að dýr umbreyti því úr grasi eða kornmeti og yfir í vöðvamassa og síðan tapast önnur 90% þegar fólk borðar kjötið af þessum dýrum. Við sitjum því uppi með 1% af orkunni og próteininu sem var upprunalega til staðar í kornfæðinu og höfum bókstaflega sóað 99% af því.
Það að klippa dýrin út sem hlekk í fæðukeðjunni okkar væri gríðarlega dýrmætt fyrir vistkerfin okkar og skilvirkni í matvælaframleiðslu á heimsvísu.
Áhrif á loftslagið
Matvælaframleiðsla er ábyrg fyrir um fjórðungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda. Hér er uppskiptingin aftur mjög upplýsandi því 53% losunar vegna matvælaframleiðslu má rekja til framleiðslu dýraafurða á meðan 29% má rekja til framleiðslu afurða úr jurtaríkinu til manneldis. Þau 18% sem eftir standa má síðan rekja til annara þátta í virðiskeðju matvæla svo sem umbúðaframleiðslu og matvælaflutninga.
Hér er því, líkt og með landnotkunina, alveg augljóst að matur úr jurtaríkinu er töluvert betri fyrir loftslagsið heldur en dýraafurðir. Þrátt fyrir að losun matvæla úr dýraríkinu sé mjög mismikil eftir því um hvaða dýr eða afurð ræðir þá er losunin meiri í næstum öllum tilvikum heldur en frá mat úr jurtaríkinu.
Til samanburðar getur verið gaman að skoða út frá loftslagssjónarmiðum hversu mikil áhrif það hefur að velja innlenda framleiðslu frekar en að kaupa innfluttar vörur. Þegar rýnt er í gögnin er skýrt að það að velja mat úr jurtaríkinu hefur töluvert meira að segja þegar kemur að sparnaði í losun gróðurhúsalofttegunda heldur en hversu langa vegalengd hann hefur ferðast. Oft er best að velja bæði (þ.e. innlennt og jurtafæði) en mest jákvæð áhrif hefur að velja jurtafæði yfir höfuð, hvaðan sem það kemur.
Áhrif vegna mengunar
Alls kyns efni eru notuð í landbúnaði ýmist til að hraða vexti plantna, drepa pestir og skordýr eða koma í veg fyrir sýkingar í dýrum. Þrátt fyrir bætta Evrópulöggjöf um alls kyns landbúnaðartengd efni hefur notkun margra slíkra efna í för með sér skaðleg hliðaráhrif. Þrír efnaflokkar standa upp úr þegar kemur að mestu skaðlegu áhrifunum.
Tilbúinn áburður
Tilbúinn áburður er notaður til að örva plöntuvöxt með því að auka magn ákveðinna næringarefna í efstu lögum jarðvegsins. Ef notkun slíks áburðar er óhófleg eða ónákvæm veldur það því að of mikið af næringarefnum er bætt við í jarðveginn eða þau sett á vitlausa staði. Oft verða afgangsnæringarefnin að gróðurhúsalofttegundum eða skolastí burtu með regnvatni og safnast saman ýmisst í grunnvatni eða yfirborðsvatni eins og í ám, vötnum og sjó. Offramboð af þessum næringarefnum getur síðan valdið ofauðgun sem gerist þegar smáþörungar springa út, yfirgnæfa og bóstaflega kæfa nánast allt annað líf í vatninu.
Eitt þekktasta dæmið um afleiðingar slíkrar ofauðgunar af völdum afgangsáburði úr landbúnaði er Dauða svæðið í Mexíkóflóanum. Þar fer þetta ofauðgunarferli fram í lok sumars á hverju einasta ári með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarvistkerfin á svæðinu.
Skordýraeitur
Skordýraeitur er notað til að drepa eða koma í veg fyrir skordýr eða annarskonar pestir og sýkingar í alls kyns korn-, grænmetis- og ávaxtaframleiðslu. Eitrið hefur þróast töluvert og eru efnin mörg hver orðin nákvæmari en áður sem þýðir að þau hafa einungis skaðleg áhrif á nákvæmlega þann skaðvald sem verið er að eiga við en ekki allar lífverur. Bætt Evrópulöggjöf hefur líka dregið verulega úr allra skaðlegustu efnunum en engu að síður getur notkun skordýraeiturs verið skaðleg fyrir fólk, dýr og aðrar lífverur.
Sýklalyf
Sýklalyf eru síðan þriðji stóri efnaflokkurinn sem stafar hætta af í nútímalandbúnaði. Þau eru notuð til að koma í veg fyrir sýkingar í dýrum sem er verið að rækta til manneldis. Óhófleg notkun á slíkum lyfjum veldur sýklalyfjaónæmi þar sem bakterírur byggja upp varnir gegn lyfjunum. Víða hefur tíðkast að gefa dýrum fyrirbyggjandi sýklalyf frekar en að nota þau einungis þegar sýkingar koma upp. Það er hins vegar bannað á Íslandi og er notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði óvenju lítil m.v. mörg önnur evrópsk lönd.
Þrátt fyrir ágæta stöðu hér á landi er sýklalyfjaónæmi samt sem áður áhyggjuefni fyrir okkur því það er alþjóðlegt vandamál sem virðir ekki endilega landamæri. Óhófleg sýklalyfjanotkun við framleiðslu dýraafurða annars staðar í heiminum sem við kaupum síðan hérna heima ýtir undir þennan alvarlega vanda.
Það að velja grænkerafæði dregur verulega úr mengun úr öllum þessum flokkum. Hvað varðar tilbúinn áburð og skordýraeitur þá eru þau efni vissulega notuð í framleiðslu jurtaafurða en vegna þess að meirihluti þessara afurða fara í dýrafóður stafar mun minni slík mengun af grænkerafæði heldur en dýraafurðum. Sýklalyfjanotkun er síðan algjörlega óviðeigandi í framleiðslu grænkerafæðis og myndum við því fara langt með að leysa sýklalyfjaónæmi með því að borða mat úr jurtaríkinu.
—
Næstu hlutar í þessari stuttu seríu um ,,Hvers vegna vegan?’’ munu fjalla um tengsl veganisma og dýravelferðar, heilsu og fjárhags, og hvers vegna við þurfum fleiri ófullkomna grænkera.
Ég hvet ykkur til að taka þátt í Veganúar, prófa bara í einn mánuð að klippa út eins margar dýraafurðir og þið getið. Frekari upplýsingar um Veganúar og veganisma almennt má finna á vefsíðu Samtaka Grænkera á Íslandi.








Wonderful post, Finnur! I'm looking forward to the rest in the series! ❤️
Frábær færsla, hnitmiðuð, mjög skýrt sett fram og rökstudd. Spennt fyrir framhaldinu!