Hvers vegna vegan? (II. hluti)
Vegan fyrir dýrin
Eins og kom fram í fyrsta hluta þessarar þriggja-hluta vegan seríu í tilefni af Veganúar, þá hóf ég vegan vegferðina mína vegna þess að ég vildi draga úr áhrifum mínum á umhverfið. Í byrjun árs 2020 takmarkaði ég kjöt við eina máltíð í viku og varð síðan grænmetisæta um haustið sama ár. Það var hins vegar ekki fyrr en ári eftir að ég steig fyrstu skrefin að ég sannfærðist um að stíga síðustu skrefin í átt að veganisma og þá dýranna vegna.
Til að byrja með hafði ég mest verið að kynna mér umhverfisáhrif dýraafurða og hafði ekki mikið pælt í sjónarmiðum um dýravelferð. Það breyttist hins vegar þegar ég fylgdist í fyrsta skipti með samfélagsmiðlum Veganúar í janúar 2021. Þar fékk ég að fræðast og heyra reynslusögur fólks sem gerðist grænkerar fyrst og fremst af siðferðislegum ástæðum, fyrir dýrin.
Eftir að hafa kynnst þeirri hlið veganisma sem snýr að dýravelferð var ekki aftur snúið og vorið 2021 gerðist ég vegan að fullu. En hvað er það við veganisma sem er svona gott fyrir dýrin?
Líf eða dauði
Við mannfólkið höfum gjörsamlega umbylt dýraríkinu öllu. Ef við skiputm lífmassa allra spendýra á jörðinni niður í 100 kubba þekjum við fólkið 36 kubba, húsdýrin og gæludýrin okkar 59 kubba og villt spendýr einungis 5 kubba. Dýr til manneldis eru farin að nálgast tvöfalda þyngd fólks. Þetta eru ótrúlegar tölur og sýna hvað dýramiðaður landbúnaður er gríðarlega umfangsmikill.
Það að borða dýr krefst þess að þau fæðist, stækki og deyji. Þetta er hinn óumflýjanlegi raunveruleiki sem öll dýr sem eru ræktuð til manneldis þurfa að horfast í augu við. Í raun og veru er tilvera þeirra takmörkuð, af fólki, við þann eina tilgang að verða að mat fyrir fólk eða jafnvel önnur dýr. Framleiðsla kjöts snýst því bókstaflega um líf og dauða.
Frekar en að horfa á hlutfall húsdýra og villtra dýra getur verið gagnlegra að horfa á fjölda húsdýra sem er slátrað árlega. Fjöldi nautgripa sem er slátrað árlega er um 910 milljónir, fjöldi kinda og geita samanlagt um 1,2 milljarðar, fjöldi svína um 1,5 milljarðar og fjöldi kjúklinga hvorki meira né minna en 76 milljarðar. Heildarfjöldi dýra sem er slátrað á hverju ári er 85 milljarðar. Til samanburðar er fjöldi fólks á jörðinni ca. 8 milljarðar.
Velferð og þjáning dýra
Þó snýst veganismi ekki bara um líf eða dauða dýra og kannski frekar mikil einföldun að horfa bara á þann fjölda dýra sem er slátrað árlega. Á meðan dýrin eru lifandi skiptir aðbúnaður og velferð þeirra nefnilega miklu máli. Veganismi snýst því líka um hvernig komið er fram við dýr á meðan þau eru á lífi og hvaða aðstæður þeim eru boðnar.
Ég er enginn sérfræðingur í dýravelferð en veit að mér er ekki sama hvernig komið er fram við dýr. Ég vil að komið sé fram við þau sem lifandi skynverur sem hafa líkamlegar og sálfræðilegar þarfir líkt og við fólkið. Ég vil að það sé komið fram við þau af virðingu og þeim boðið upp á líf þar sem þeim líður vel. Það er því miður allt of sjaldan veruleikinn.
Verksmiðjubúskapur hefur aukist í veldisvexti undanfarna áratugi og eru nær öll dýr til manneldis föst í viðjum þessa iðnaðar. Um 74% allra þeirra húsdýra sem lifa á landi eru föst í verksmiðjubúskap og ef fiskar til manneldis eru teknir með í reikninginn rýkur talan upp í 94%.
Samtök um dýravelferð á Íslandi hafa á undanförnum árum vakið athygli á sérstaklega slæmum aðbúnaði svína og illri meðferð blóðmera. Einnig hefur Íslenski náttúruverndarsjóðurinn vakið athygli á þjáningu eldisfiska. Það þarf því ekki að líta út fyrir landsteinana til að finna verksmiðjubúskap með tilheyrandi þjáningu dýra.
Þrátt fyrir að niðurstaðan fyrir dýrin sé alltaf sú sama, að þeim er slátrað og verða að mat, þá skiptir velferð þeirra á meðan þau eru á lífi miklu máli. Ef ég get komið í veg fyrir að dýr verði drepin, þá kýs ég það. Ef ég get komið í veg fyrir þjáningu dýra, þá kýs ég það.
En, hvað með egg og mjólk?
Eins og algengt er þá skildi ég ekki til að byrja með hvers vegna það væri slæmt fyrir dýr að borða egg og drekka mjólk. Þegar ég kynnti mér málið komst ég hins vegar að því að egg og mjólkurvörur alls ekki eins saklausar og þær virðast.
Fyrir utan áhrif kúa á loftslagið og náttúruna (sjá fyrsta hluta) þá hefur mjólkurframleiðsla sömu vandamál í för með þegar kemur að dýravelferð og framleiðsla nautakjöts. Í fyrsta lagi er aðbúnaður kúa alls ekki alltaf ásættanlegur. Í öðru lagi þarf stöðugt að þvinga þungun kúa til að þær haldi áfram að framleiða mjólk með öllu því álagi sem því fylgir. Í þriðja lagi eru kálfarnir oft teknir mjög snemma frá mærðrum sínum og jafnvel slátrað í ljósi þess að þeirra tilgangi í mjólkurframleiðslunni er í raun lokið við fæðingu. Aftur, þá er ég ekki sérfræðingur í dýravelferð og veit ekki nákvæmlega hvernig er staðið að mjólkuriðnaðinum á Íslandi en leyfi mér að efast um að aðbúnaðurinn sé ávallt í takt við líkamlegar og sálfræðilegar þarfir dýranna.
Svipaða sögu má segja um eggjaframleiðslu. Hænur sem þjóna þeim tilgangi að verpa eggjum til manneldis búa oft við slæman aðbúnað líkt og kjúklingar sem er slátrað til manneldis. Síðan er hænunum sjálfum einnig oft slátrað mun fyrr en þær myndu deyja ef horft er til þeirra náttúrulegu lífslíka. Ekki nóg með það heldur þarf auðvitað að láta einhver egg klekjast til að halda við verpandi hænustofninum og er karlkyns kjúklingum oftast slátrað strax því þeir verpa ekki eggjum.
Forréttindi og veganismi
Dýraafurðir hafa vafalaust verið mikilvægur liður í þróun okkar sem dýrategund en sem betur fer eru aðstæður í heiminum í dag allt aðrar en þær voru þegar við mannfólkið vorum að stíga fyrstu skrefin. Þetta sést t.d. á þeim stjarnfræðilegu tölum um hlutfall húsdýra m.v. villt spendýr og á tölum um fjölda dýra slátrað til manneldis á hverju ári.
En þrátt fyrir miklar framfarir undanfarnar aldir eru aðstæður og lífskjör fólks þó mjög mismunandi eftir heimshlutum og auðvitað innan landa líka. Þetta þýðir að veganismi er alls ekki valkostur fyrir okkur öll og óraunhæft að ætlast til þess að öll heimsbyggðin gerist grænkerar. Hin hliðin á þessum pening er hins vegar sú að það er fullt af fólki sem getur gerst grænkerar og það frekar auðveldlega.
Eru það þá forréttindi að vera grænkeri?
Að einhverju leyti, já. Ef fólk velur að gerast grænkeri þýðir það sennilega að viðkomandi búi í vestrænu ríki með háa þjóðarframleiðslu á hvern einstakling og með gott aðgengi að fjölbreyttum og hollum mat. En, þá mætti spyrja sig hvort það sé þá ekki ákveðið val að vera ekki grænkeri ef maður er í stöðu til að vera grænkeri?
Þetta er spurning sem kemst nærri kjarna veganisma eins og ég skil hann. Mér finnst að við sem erum í stöðu til að gerast grænkerar, í stöðu til að draga verulega úr áhrifum okkar á umhverfið og þjáningu dýra, ættum að gera það.
Stækkum siðferðislega sjóndeildarhringinn
Fyrir mér snýst þetta um að við séum að víkka út siðferðislegan sjóndeildarhring okkar. Þó að við eigum langt í land með að tryggja mannréttindi og velferð alls fólks eigum við ekki að takmarka okkur þegar við getum unnið að aukinni velferð dýra á sama tíma. Það er hægt að gera hvort tveggja samtímis og er aukin útbreiðsla veganisma jafnvel líkleg til að skila aukinni velferð fólks með því að vernda loftslagið og náttúruna.
Okkur er flestum mest umhugað um okkur sjálf, fjölskyldu okkar og vini. Þar á eftir finnum við oft til ábyrgðar þegar kemur að þeim samfélagshópum sem við tilheyrum og landinu okkar. Svona víkkar siðferðislegi sjóndeildarhringurinn okkar út á við, eitt lag í einu.
Áhugavert er að velta fyrir sér hvar við staðsetjum dýr í þessu samhengi og hvers vegna mörgum finnst ákveðnar dýrategundir eiga meira skilið að lifa en aðrar. Til að mynda er talið að svín séu greindari en hundar, en samt finnst flestum fáránlegt að fara illa með hunda og hvað þá drepa þá til að borða en finnst eðlilegt að borða svínakjöt.
Við venjumst því sem við erum alin upp við og erum eins og svampur þegar kemur að samfélagslegum venjum. Þess vegna er áhugavert að velta fyrir sér hvað okkur fyndist um kjötneyslu ef við hefðum öll verið alin upp við veganisma. Það er nefnilega það sem við þurfum að gera, að snúa myndinni við og gera veganisma að norminu.
Veganismi er ekki valkostur fyrir alla, en fyrir okkur sem búum í ríku vestrænu landi með gott aðgengi að grænmeti, ávöxtum og öðrum mat úr jurtaríkinu sem getur uppfyllt allar okkar næringarþarfir er veganismi svo sannarlega valkostur sem við ættum öll að íhuga og reyna að tileinka okkur.
Veganismi er samfélagslegt verkefni og það er langt frá því að vera svart-hvítt. Þessi alþjóðlega hryefing er marglaga og við þurfum nauðsynlega að stunda meiri ófullkominn veganisma. Það verður einmitt umfjöllunarefni þriðja og síðasta hlutans í þessari seríu.
—
Fyrsti hlutinn í þessari stuttu seríu um ,,Hvers vegna vegan?’’ fjallaði um áhrif landbúnaðar og dýraafurða á umhverfið. Þriðji og síðasti hlutinn mun fjalla um hvers vegna við þurfum fleiri ófullkomna grænkera og örlítið um heilsu og fjármál í tengslum við veganisma.
Ég hvet ykkur til að taka þátt í Veganúar, prófa bara í einn mánuð að klippa út eins margar dýraafurðir og þið getið. Frekari upplýsingar um Veganúar og veganisma almennt má finna á vefsíðu Samtaka Grænkera á Íslandi.









Takk takk takk Finnur fyrir þennan frábæra pistil og góðu samantekt!
Sjaldan hafa skrif náð jafn vel að kjarna held ég upplifun langflestra grænkera (allavega í mínu nærumhverfi) og þessi.